Forgangsraða tímanum

Elín Kára

Ég veit ekki hversu oft ég hef gripið í þá afsökun að „hafa ekki tíma“ til að gera eitthvað. Stundum hef ég í raunveruleikanum ekki tíma en iðulega þá er ég að forgangsraða þannig að sumt endar í afsökunar- kassanum merktur: „ég hef ekki tíma“.

Ég viðurkenni alveg að forgangsröðunin er ekki alltaf góð hjá mér og oft er ég ekkert að forgangsraða – ég er bara að gera. Mig grunar að margir detti í þann pitt að vera alltaf að „gera eitthvað“. Með því gefst ekki einu sinni tími til þess að forgangsraða því sem ætti að fá mestan tíma í takti við markmið og drauma.

Ég hef áður talað um það hér að við erum öll jöfn, við höfum öll 24 klukkutíma í sólarhringnum. Munurinn á okkur er hvernig við veljum að eyða þessum klukkustundum. Mér finnst gott að setjast aðeins niður og gefa mér smá tíma til þess að átta mig á hvað mig langar til að gera og hvert ég er að stefna. Þetta auðveldar fyrir mér þær ákvarðanir sem ég þarf að taka í kjölfarið. Auðveldara verður að átta sig á því hvernig ég ætla að eyða tímanum mínum.

Ég hef ekki tíma….

Ég hef ekki tíma til að hreyfa mig – okay, ég hef komið með þessa oft. Ég er líka búin að viðurkenna það fyrir sjálfri mér að ég er í raunveruleikanum ekki að forgangsraða deginum þannig að ég gefi mér tíma til að hreyfa mig. Ég hef nægan tíma til að hreyfa mig þegar mig í alvörunni langar til þess. Hjá mér er þetta orðin þreytt afsökun og ég ætla að hætta að nota hana.

Ég hef ekki tíma til að vera í skipulögðu félagsstarfi þar sem ég þarf að þrífa heimilið – þessa afsökun hef ég ekki notað – ennþá. En ég heyri hana oft hjá konum sem eru komnar vel yfir 45 árin. Og ég skil hana eiginlega ekki. Margar eldri konur hafa aldeilis sagt mér það að þegar ég er komin með barn og hvað þá börn, þá verður nú ekki tími til að vera í félagsstörfum fyrir sjálfan sig. Það að halda heimilinu hreinu tekur allan tímann frá manni.

Nú  á ég barn og hef ég ekki ennþá fundið fyrir þessu. En ég vil ekki rengja þessar ágætu konur sem eru með góðmennsku sinni að „vara mig við“ og um leið eru þær að stilla væntingum mínum í hóf gangvart því að eyða tíma í sjálfa mig. Ég skil samt ekki alveg af hverju það tekur svona óhemju tíma að þrífa heimilið. Ég held að verklag margra þegar kemur að þrifum heimilisins sé lélegt og þess vegna tekur þetta tíma.

Ég hef það mottó að eyða ekki heilum laugardegi í að þrífa húsið mitt, vegna þess að ég vil eyða þeim tíma í að vera með fjölskyldunni, sinna félagsstarfi eða bara eitthvað annað. Ég þríf klósettið stundum á morgnanna og stundum á kvöldin. Ég þurrka af, sópa eða eitthvað annað á öllum tímum, inná milli verka. Þó ég þrífi spegilinn inná baði, þýðir það ekki að ég þurfi að taka vaskinn, klósettið, sturtuna og gólfið um leið. Fyrir utan það að vera svo lánsöm að búa með manni sem hefur nútíma hugsun og þrífur jafnt á við mig. Þannig hef ég tíma til að gera allt mögulegt.

-Elín Kára-

Ein athugasemd við “Forgangsraða tímanum

  1. Bakvísun: Forgangsraða tímanum – Betri fréttir

Lokað er á athugasemdir.