Ég týndi markmiðinu…

Elín Kára

… í truflunum lífsins. Ég lendi svo oft í því að lífið er fyrir markmiðunum mínum og truflar mig í því að ná þeim. Ég er með allt á hreinu – búin að skipuleggja mig nákvæmlega, búin að kaupa allt sem til þarf, komin með skothelda aðgerðaáætlun og ég er sjúklega peppuð fyrir verkefninu.

Og þá truflar lífið!

Akkúrat á þessum tímapunkti, þegar allt er tilbúið þá sefur barnið ekki vel um nóttina. Eða þá koma fréttir af einhverju sem taka mann úr jafnvægi. Eða þá klikkar bíllinn. Eða þá koma gestir. Eða þá ______.

Lífið mun alltaf trufla. Ég hef verið að æfa mig í því að halda mig við markmiðin mín, þrátt fyrir allskonar truflanir. Það er erfitt, oft mjög erfitt. En þegar það tekst þá er það svo skemmtilegt vegna þess að ég lét lífið ekki trufla mig. Ég var með stjórn á öllum mínum aðstæðum og missti ekki sjónar af markmiðinu mínu.

Tökum dæmi:

Ég er með markmið um að ná ákveðnum árangri í ræktinni. Því fylgir að ég þarf að mæta reglulega. Ég þarf að vanda mig með matarræði. Ég er búin að kaupa mér kort í ræktina, kaupa prógram og allt annað sem til þarf að mínu mati. Það er allt tilbúið og ég er peppuð fyrir að ná mínu markmiði – þetta getur ekki klikkað!

Svo koma gestir og það er svo góð stemming fyrir að baka vöfflur. Svo er ferming, barnaafmæli, ferðalag, vinkonuferð, út að borða með vinnunni… hvar endar þetta?? Það er allt að trufla markmiðið mitt.

En hvor stjórnar? Þú eða allskonar truflanir?

Truflanir verða alltaf til staðar. Spurningin er: hvernig ætlar þú að tækla markmiðin þín samhliða öllum truflununum.

Þetta dæmi er hægt að taka um allt mögulegt; klára verkefni í vinnu eða skóla. Taka fjármálin föstum tökum, bæta lífstílinn sinn á einhvern hátt og margt fleira.

Skrifa og teikna

Máttur þess að skrifa og teikna markmiðin sín eru mikil ef þú horfir á þau á hverjum degi. Þetta er eitthvað sem margir klikka á. Ég hef oft skrifað niður markmið, loka það svo inni í bók og því er gleymt á nokkurm dögum. Þau markmið sem hafa farið uppá vegg, þannig að ég sé þau á hverjum degi – það eru þau markmið sem ég næ, iðulega á tilsettum tíma.

Með því að hafa markmiðin sýnileg þá munu truflanir lífsins ekki hafa eins mikil áhrif á þig. Þú dansar í kringum truflanirnar og verður góður í því. Markmiðin nást þrátt fyrir veðrið, svefnlausar nætur eða _____.

Sjálf hef ég náð góðum árangri með tækni frá Brian Mayne, Hann kennir manni að nota bæði orð og myndir til þess að muna betur eftir markmiðinu sínu. Einnig til þess að finna út lausnir og leiðir til þess að ná markmiðinu. Ég hef engan hag af því að mæla með Goal mapping – þetta hefur gert gott fyrir mig og gæti gert það fyrir þig líka.

over and out

-Elín Káradóttir-

Ein athugasemd við “Ég týndi markmiðinu…

  1. Bakvísun: Ég týndi markmiðinu… – Betri fréttir

Lokað er á athugasemdir.