Einfalt og auðvelt

Elín Kára
Elín Kára

Við leitumst alltaf við að hafa hlutina einfalda og auðvelda. Þegar ég fer markvisst í að einfalda fyrir mér lífið, þá tek ég til. Tek til í fataskápnum, bílnum, þvottahúsinu á skrifborðinu í vinnunni o.s.frv. Árangurinn leynir sér ekki, ég er fljótari að gera hluti og iðulega er auðveldara að drífa í hlutunum og klára það sem þarf að gera.

Ástæðan fyrir því að ég nefni þvottahúsið, fataskápinn og bílinn sérstaklega er vegna þess að það eru staðir sem þú umgengst hvað mest. Þetta eru einnig staðir sem mæta afgangi þegar kemur að því að hafa hreint og skipulagt í kringum sig.

Þvottahúsið. Ég skil ekki óhrein þvottahús! Ég skil ekki hvernig það gengur upp að vera með hreinan þvott í skítugu þvottahúsi sem er troðfullt af dóti. Ég mæli með því að þú hafir það sem markmið um næstu helgi að taka til í þvottahúsinu og einfalda það. Hafa það þannig að auðvelt er að ganga um og hengja upp. Þú átt eftir að upplifa ótrúlega hamingju og finnast lífið nokkrum hugarfars-tonnum léttara 🙂

Fataskápurinn. Með því að hafa fataskápinn einfaldan, uppraðað og ekki of mikið af óþarfa fötum sem eru aldrei notuð, þá ertu að einfalda þér fataval á morgnanna og þú hefur betri yfirsýn yfir hvað er hreint eða óhreint.

Bíllinn. Það er erfitt að ganga um bílinn ef það eru flöskur, súkkulaðibréf eða annað dót út um allt, í sætum eða gólfi. Taktu til. Fáðu þér svo poka þar sem þú setur allt rusl. Það verður einfaldara að setjast inn í bílinn og léttara að ferðast um í honum. Þú átt eftir að upplifa heilmikinn létti og einföldun á daglegu lífi.

Höfum nær umhverfi okkar einfalt og hendum öllum óþarfa. Einfalt, auðvelt og þægilegt.

Taktu til!

-Elín Káradóttir-

Ein athugasemd við “Einfalt og auðvelt

  1. Bakvísun: Einfalt og auðvelt – Betri fréttir

Lokað er á athugasemdir.