Góður fyrirlestur: 12 lykilatriði

Elín Káradóttir
Elín Káradóttir

Góður fyrirlesari og kennari kunna að gera efnið sitt spennandi fyrir þeim sem hafa engan áhuga. Til þess þurfa nokkur lykilatriði að vera til staðar, sem hafa raunverulega ekkert með innihald fyrirlestursins að gera.

Eftir að hafa setið marga góða fyrirlestra og sömuleiðis marga slæma þá lærir maður með tímanum hvenær á að horfa á fyrirlesturinn eða einungis hlusta á hann. Ég sat nýlega kynningu þar sem efni fyrirlestursins (sem var mjög spennandi) þurfti að líða fyrir frekar slæma og klaufalega framkomu þess sem flutti erindið. Ég ákvað að setja niður nokkra punkta sem mig langar til að deila með ykkur.

Þetta eru nokkur lykilatriði sem er gott að hafa í huga þegar haldin er fyrirlestur eða erindi flutt við hin ýmsu tilefni. Margt af þessu hef ég lært á framkomu- og ræðunámskeiðum, lesið í bókum og svo einnig með því að sitja marga fyrirlestra í gegnum tíðina. Eins hef ég haldið nokkra fyrirlestra sjálf við hin ýmsu tilefni, allt frá þægilegri 10 manna kynningu, 100 manna brúðkaupi til 2000 manna samkomu. Það hefur gefið mér reynslu þar sem ég læri best á mínum eigin mistökum.

  • Vertu búin að flytja erindið þitt að lágmarki 2x fyrir einhvern (foreldri, vin, mentor, kennara, þjálfara).
  • Vertu búin að flytja það nokkrum sinnum fyrir framan spegil með sjálfum þér og taktu tímann á þér.
  • Sjáðu fyrir þér viðburðinn frá A-Ö. Hvernig gengur þú inn, hvernig munt þú standa, hvernig talar þú, hvar eru áherslurnar þínar, hvernig lítur fyrirlesturinn út í heild sinni, hvernig lokar þú erindinu þínu, hvernig gengur þú í burtu?
  • Fáðu að vita frá skipuleggjanda hvernig fyrirkomulag viðburðarins er og byggðu fyrirlesturinn upp út frá því.
  • EKKI, undir neinum kringumstæðum tala niður til sjálfs þíns. Bara plís, EKKI! Þú varst beðin um að koma upp til að tala – talaðu. Ekki segja að þú sért stressaður eða þú skiljir ekki alveg af hverju þú ert þarna. Já eða að allir í salnum séu gáfaðari en þú og þú eigir ekki skilið að vera uppi á sviði að tala. Í guðanna bænum! Talaðu og deildu með okkur því sem þú hefur að segja 🙂 ef þú hefðir ekkert fram á að færa þá væriru ekki beðin um að vera þarna uppi!
  • Ef þú ert með glærur, vertu búin að prufukeyra þær áður en allir mæta, til að vera viss um að allt virkar. (Ef þær klikka, vertu með plan B).
  • Ef þú þarft að sýna vídeó, vertu viss um að þú vitir hvernig þú átt að ýta á PLAY 😉 Það er fátt pínlegra en að vera á fyrirlestri eða í kennslustund og það tekur heila eilífð að finna play takkann.
  •  Taktu fólkið með þér með því að ná athygli þess. Ekki góna á glærurnar eða niður á gólfið. Þegar þú lítur upp, ekki horfa upp í hornið hægra megin, horfðu á fólkið í salnum og hafðu það með þér. Þetta á jafnt við um kennara og aðra fyrirlesara.
  • Ef þú ert ekki vanur að tala blaðlaust þá er betra að vera með blað eða spjöld. Blaðlausar ræður eiga það til að verða of langar og mörg orð eins og: „hérna“, „sko“, „og svo“, „eins og ég segi“ koma of oft fyrir og það er erfitt að hlusta á það.
  • Ef það er blómaskreyting eða aðrir hlutir á sviðinu, stattu fyrir framan það eða við hliðina á því 😉 (ekki fyrir aftan það).
  • „en ég kem að því seinna“ – þetta er slæm setning í fyrirlestri. Af hverju ertu að nefna eitthvað ef þú ætlar ekki að tala um það núna? Svo kemur fólk iðulega ekki að þessu „seinna“ í fyrirlestrinum. Reyndu að sleppa þessari setningu.
  • Líkamsstaða: vertu bein/n í baki og stattu í lappirnar (ekki dingla þeim fram og til baka). Hafðu hemil á höndunum á þér og komdu þeim eðlilega fyrir (fáðu leiðbeiningar eða horfðu á reynslubolta #youtube) og karlmenn: ekki hafa hendur í vösum þannig að þið öskrið á alla í salnum: „hér er typpið á mér“.

Æfingin skapar meistarann, það eru ekki allir sjóaðir eins og Ólafur Ragnar Grímsson eða Barack & Michelle Obama, sem eru yfirburða ræðumenn/kona. Hins vegar skaltu halda áfram að tala og nýttu hvert tækifæri til að koma fram með efnið þitt, kynninguna eða kennsluefnið.

Leyfðu þér að gera mistök, öðruvísi lærir þú ekki!

-Elín Káradóttir-

Ein athugasemd við “Góður fyrirlestur: 12 lykilatriði

  1. Bakvísun: Góður fyrirlestur: 12 lykilatriði – Betri fréttir

Lokað er á athugasemdir.