Ég er nennarinn

Jább, ég er nennari. Ég nenni að gera hluti og hafa fyrir hlutunum. Svo kem ég mörgum af mínum hugmyndum í framkvæmd. Þess vegna er ég “nennari”.  

Þegar maður spyr fólk af hverju það kláraði ekki skólann, þá er svarið iðulega: “æji, ég nennti því ekki”.

Hvernig stendur á því að þú ert ekki búin að ná af þér öllum þessum kílóum eins og þú talaðir um hérna fyrir nokkrum mánuðum síðan?  “Æji, ég nennti því ekki”.

Af hverju ertu ennþá ________________? “Af því að ég nennti því ekki”.

Af hverju er allt út um allt heima hjá þér, í herberginu þínu, í bílnum þínum? “Æji ég bara nenni ekki að taka til”.

Fólk sem hefur náð góðum árangri á sínu sviði – það nennir. Í rauninni þurfa menn ekki að vera hissa á því að ákveðið fólk er komið á góðan stað, því flestir þeirra eru miklir nennarar. Nenna að fara út og hafa fyrir hlutunum þegar aðrir gera það ekki vegna þess að þeir “nenna því ekki”.

“Þú fyllist alltaf vellíðan þegar þú hefur afrekað eitthvað af eigin rammleik; vellíðan fylgir ávallt þeirri tilfinningu að hafa náð árangri.” – Erik Bertrand Larssen

Matarboðið sem breytti hugsun

Konan rak skeiðina sem átti að fara í pottréttinn í borðið og sagði við mig:  “Í guðanna bænum ekki nota þetta ljóta orð “nenna”, þetta orð á ekki að vera til. Þetta er ljótt og ljótur ávani”. Mér var ansi brugðið við þessa orðsendingu í þessu líka annars fína matarboði. Ég man ekki frá hverju ég var að segja, en ég sagði í miðri sögunni “en ég nennti því ekki”. Þetta var mjög hressandi áminning og ég er þakklát fyrir að konan sagði þetta við mig.

Prófaðu að breyta hugsuninni og nota frekar: “já ég skal gera (því ég er nennari)”.

Þegar einhver spyr þig hvort þú nennir að gera eitthvað, þá byrjar þú strax að vera þreyttur og latur. Þú ert ekki upplagður í að gera hlutinn, þó svo að hann sé nákvæmlega ekkert mál. Ef einhver hefði spurt: „ertu til í að gera þetta?“ – þá ertu upplagður í að framkvæma, gera og afkasta.

Ég er með tillögu – hættum að nota orðið „nenna“. Og í hvert sinn sem einhver spyr þig hvort þú nennir að gera eitthvað, þá segiru: “Já, vegna þess að ég er nennari”.

Ég ætla í lífsáskorun – hætta að nota orðið nenna.

-Elín Kára-

Ein athugasemd við “Ég er nennarinn

  1. Bakvísun: Ég er nennarinn – Betri fréttir

Lokað er á athugasemdir.