Hvor stjórnar þér? Þú eða vaninn?

Elín Káradóttir
Elín Káradóttir

„Við erum það sem við borðum“ heyrist margoft. Ég vil meina að við erum venjurnar okkar. Við komum okkur upp rútínu í kringum venjurnar okkar og þessi rútína af venjum erum við. Svo er bara spurning, hvaða venjur eru í gangi og þarf mögulega að breyta þeim.

Það hvað við veljum að setja í innkaupakörfuna í versluninni er vani. Það er ávani að borða alltaf mat sem gerir þér ekki gott og í framhaldinu kemur þessi setning – „við erum það sem við borðum“.

Það er erfitt að breyta venjum og margir gefast upp vegna þess að venjurnar eru svo inn prentaðar í okkur. Til þess að breyta venjum þá þarf að taka ákvörðun.

Ég tók ákvörðun!

Eftir að maðurinn minn og dóttir eru farin út á morgnanna hefur sú venja skapast hjá mér að fara aftur upp í rúm og kúra aðeins lengur (vegna þess að ég er svo þreytt). En samt búin að segja sjálfri mér og öðrum að ég ætla sko aldeilis að nýta morguninn í að hreyfa mig og græja hluti innan heimilisins áður en ég fer í vinnu. 

Eftir 38 daga þá tók ég ákvörðun!

Ég kvaddi feðginin inní forstofu, fór og setti í þvottavélina og ómeðvitað var ég komin inn í myrkvað herbergið og lagðist uppí rúm. Engan veginn þreytt – þetta var bara vaninn. Þarna lá ég í 45 mín að hugsa um það hvort ég ætti ekki að standa upp. Ég lá með galopin augun og þá hófst samtalið sem hjálpaði mér að taka ákvörðunina.

Ég er ekki þreytt, jú ég er alveg þreytt. Ég ætti nú að nýta tímann og gera eitthvað. Æj, ég þarf að hvíla mig aðeins. Hvort ætti ég að klæða mig fyrst eða búa um rúmið þegar ég hef staðið upp? Skiptir það máli? Það væri betra að klæða mig í sokkana fyrst. Hvort ætti ég að fara út í gönguferð eða taka æfingar á stofugólfinu?

Eftir 45 mín ákvað ég að standa upp. Bjó um rúmið. Klæddi mig fyrst í sokkana og ég man ekki rest. Allt í einu var ég komin inní bílskúr með sippubandið í hönd og farin að taka 100 sipp.

Þarna þurfti ég ekkert að hugsa og hugsa, hvað væri best að gera og í hvaða röð – ég bara framkvæmdi.

Í viku hef ég ekki þurft að hugsa, ég fer ekki upp í rúm aftur að sofa. Ég ákvað að fara út að skokka í staðinn fyrir að fara inn að sofa. Þó það sé rok, rigning eða eitthvað annað, ég bara fer út. Mér líður miklu betur!

Já, ég nýtti mér Meistaramánuð til að koma mér upp nýjum venjum. Ég bað manninn minn og tvær góðar vinkonur um að hveta mig áfram. Ég mæli með að þú gerir eitthvað slíkt fyrir sjálfan þig.

Umfram allt – taktu ákvörðun!

-Elín Káradóttir-

 

Ein athugasemd við “Hvor stjórnar þér? Þú eða vaninn?

  1. Bakvísun: Hvor stjórnar þér? Þú eða vaninn? – Betri fréttir

Lokað er á athugasemdir.