Að hafa fulla orku

Á aldrinum (ca) 25-45 ára ætti fólk að vera með mestu orkuna á lífsleiðinni. Þetta er samt ekki algilt, þar sem margir eru á sínum besta stað um tvítugt og svo eru aðrir sem eru á sínu besta róli milli 50 ára og 60 ára. Svona erum við öll misjöfn.

Þegar ég horfi tilbaka á mína stuttu ævi (þar sem ég er 27 ára í dag), þá myndi ég segja að ég hafi verið með mestu orkuna þegar ég var 23 ára. Þegar ég hugsa um það ár, þá er magnað hvað ég kom mörgu í verk og á sama tíma ræktaði ég sjálfa mig af alúð. Já, þá sýndi ég sjálfri mér það í verki að líkami minn er musteri 🙂

Elín Kára

Á þeim tíma hreyfði ég mig vel, borðaði mjög vel. Var hætt að drekka áfengi um helgar. Var einhleyp og bjó ein. Sagði „nei“ við hlutum sem mér fannst ekki skemmtilegir og setti sjálfa mig í algjöran forgang. Frábær tími. Orkan var í hámarki á þessum tíma og ég græddi fullt af klukkutímum í sólarhringinn minn með því að nýta tíman minn vel.

Í dag, er ég 27 ára, gift og á eitt barn, svo er ég ólétt af öðru. Hamingjan hjá mér er gríðarlega mikil – ég hreinlega elska lífið mitt. Hins vegar er orkan mín langt frá því að vera eins og ég þegar ég var 23 ára. Og ég er búin að átta mig á því að sá tími sem ég átti þegar ég var 23 ára kemur aldrei aftur – hann verður alltaf bara góð minning. Í dag er orkan mín mjög lítil og ég get ekki framkvæmt nálægt því jafn mikið og ég gerði þegar ég var ein með sjálfa mig.

Ástæðan fyrir því að ég er að nefna þetta, er sú að bæði ég og margir aðrir lifa rosalega oft í fortíðinni. Ég dett stundum í það að segja „já, þetta er ekkert mál, hef gert þetta áður“ – en aðstæður mínar á þeim tíma voru allt öðruvísi en þær eru í dag. Það er erfitt að horfa á sjálfan sig nákvæmlega eins og maður er í dag. Horfa á stöðuna sína, líkama sinn og andlegt jafnvægi – og taka ákvörðun í DAG útfrá því hver staða manns er í DAG en ekki fyrir nokkrum árum síðan.

Það er allt í lagi að hafa ekki fulla orku – ég þarf að segja sjálfri mér það oft. Í mínu tilfelli veit ég, að þetta er tímabundið. Ég veit, að ég mun komast á góðan stað með orkuna mína eftir einhvern tíma og njóta hennar í þeim aðstæðum sem verða hjá mér á þeim tíma. Þess vegna hlakka ég mikið til framtíðarinnar sem bíður mín.

-Elín Kára-

Þennan pistil getur þú sett í samhengi við líkamsrækt og líkamsgetu, andlega heilsu, fjölskyldumynstur og margt fleira. Aðal málið er að koma sér úr fortíðinni og byrja lifa í nútíðinni. 
Hætta að segja: "þegar ég var _______ þá gat ég _______". 
Í staðin fyrir að segja: "Í dag ætla ég __________ til þess að geta ___________.

Ein athugasemd við “Að hafa fulla orku

  1. Bakvísun: Að hafa fulla orku – Betri fréttir

Lokað er á athugasemdir.