Er þetta ekki dásamlegt?

Ofninn pípar, sjónvarpið of hátt stillt með barnaefni, eldra barnið grenjar og yngra barnið er líka farið að gráta, ég hleyp til og finn að ég steig í eitthvað – þetta er bananabiti (ojj, í alvöru? ég var að skúra í gær!), síminn lætur vita af sér og það er bankað á útidyrnar. Með úfið hárið, annað brjóstið úti og í blettóttum fötum fer ég til dyra; „við erum að safna flöskum“ – að sjálfsögðu er svarað með bros á vör, ég á fullt af flöskum sem þið getið fengið.

Velkomin í raunveruleikan elskan – þú ert orðin tveggja barna móðir 🙂 

Á svona stundu keyra margir upp í sér stressið og hálfgerð bugun er handan við hornið. Á þessu augnabliki stoppaði ég, horfði á aðstæðurnar sem ég var í og brosti út að eyrum. Mér fannst svo fyndið að vera komin á þennan stað, mér fannst svo krúttlegt að horfa á bæði börnin gráta og mér fannst bara ótrúlega gaman að upplifa þennan raunveruleika sem svo margir tala um í buguðum tóni. Já, guð minn góður hvað ég skil þreytta foreldra – því ekki svaf ég fullan nætursvefn ofan á allt saman.

Þetta er nú alls ekki alltaf svona en auðvitað kemur það fyrir. Raunveruleikinn er ekki einhver glansmynd. Það versta við svona aðstæður, er að þegar þær eru að gerast er ekki efst í huga manns að taka upp símann og smella mynd. Því miður þá á ég ekki mynd af þessu mómenti.

Vonandi næ ég því næst 🙂 

-Elín Káradóttir-