Þessi þolinmæði

„Vertu þolinmóð, þetta kemur allt með kalda vatninu“ – Þetta er eitthvað sem ég þoldi ekki að heyra þegar ég var lítil, ekki frekar en hvert annað barn. Allavega er dóttir mín eins og ég var – hlutirnir þurfa að gerast strax og þeir eru nefndir.

Ég fór svo að átta mig á því uppúr tvítugu að þolinmæðin væri kannski eitthvað sem ég þyrfti að tileinka mér. Í dag finnst mér þolinmæðin vera einn af lyklunum í því að ná árangri, sama á hvaða sviði það er. En auðvitað þýðir ekkert að vera þolinmóður og gera ekkert á sama tíma. Þolinmæði þarf að sýna hlutum sem verið er að vinna í – þannig leyfir maður hlutunum að vera eins og þeir eru og á sama tíma ertu að taka lítil skref í þá réttu átt sem þú ert að velja þér.

Hver þekkir ekki að fara í líkamsræktar átak og hætta eftir tvo daga því þetta „virkar ekki“. Í stað þess að gera alltaf eitthvað á hverjum degi í langan tíma og vera þolinmóður í leiðinni.

Þú ferð á hraðlestrarnámskeið og vilt að les hraðinn komi eins og töfrar yfir þig – málið er samt að þú þarft að sýna þolinmæði og æfa þig á hverjum degi líka.

Hægt er að setja þetta í samhengi við svo margt – ég hef upplifað skemmtilega hluti með því að sýna mikla þolinmæði og leyfa hlutunum að vera eins og þeir eru.