Leyfum lífinu að gerast

Leyfum hlutunum að gerast og þróast á góðan hátt. Í stað þess að þvinga fram hluti með frekju eða öðrum brögðum.  Þú getur komið í veg fyrir að ákveðnir hlutir gerist og svo látið ákveðna hluti gerast. En um fram allt ekki hafa vonda þvingun eða frekju í fyrirrúmi. Það leiðir ekki af sér góða hluti. „Góðir hlutir gerast hægt“ er oft sagt – og það er alveg satt. Með því að hafa gott hugarfar og leyfa tímanum að vinna með sér, þá uppsker maður góða hluti. Þú þarft að sýna hlutunum þolinmæði og leggja strax-sýkina uppá hilluna.

Þetta er allt í lagi… þetta lagast!

Ég hef verið skilin útundan og verið skilin eftir. Setið ein í stórum matsal og átt enga vini þar sem ég er. Verið á vinnustað þar sem samstarfsfólk horfði niður til mín og ég var minna en ekkert í þeirra augum. Ég hef verið síðust því ég hljóp ekki nógu hratt og allt þetta.

En ég hef alltaf hugsað: „þetta er allt í lagi, þetta lagast, gefum þessu bara tíma. Ég hef bara gott af því að upplifa það annað slagið hvernig það er að vera “útundan” og eftirá“.

Að vera ekki alltaf í vinsæla hópnum eða vera stundum öðruvísi hefur kennt mér meiri auðmýkt og minnt mig á tillitssemi við aðra. Fyrir utan þetta þá er ég ekki hrædd við að vera ein með sjálfri mér og félagsskapur af eingöngu mér sjálfri er mjög góður félagsskapur (að mínu mati).

Já, leyfum lífinu að gerast.

Með því að hafa gott hugarfar í fyrirrúmi og koma heiðarlega fram við sjálfan sig og aðra þá mun gott koma til þín. Með því að vera kurteis við afgreiðslufólk, brosa til náungans og viðurkenna sín eigin mistök þá mun gott koma til þín… með tímanum.

Ég verð svo reið þegar fólk segir: “hann/hún fær allt uppí hendurnar”. Það er svo augljóst að fólk sem talar svona lifir í mikilli öfund og er grunnt í hugsun. Það sem sést útávið er bara rétt svo toppurinn á ísjakanum. Vinnan, fórnin, áhættan og erfiðið á bakvið árangur er ekki sýnilegur neinum nema rétt þeim allra nánustu. En þeir sem hafa haft fyrir hlutunum vita að á bakvið árangur er mikil vinna – það þarf enginn að segja þeim það.

Ég hef tileinkað mér það að hrósa fólki fyrir árangur – hvort sem það er á sviði líkamsræktar, fjármála, sambanda eða bara að verða betri í dag en í gær. Þeir sem ná árangri er fólk sem hefur markmið og setur mikla vinnu, áhættu og fórnir til þess að ná þeim. Vinnur jafnt og þétt í átt að því lífi sem þeir vilja lifa.  Á sama tíma leyfir fólk lífinu að gerast og hafa góðan anda með sér í því sem menn eru að gera.

Hvar ert þú með þitt hugarfar gagnvart lífinu?

-Elín Kára-

Ein athugasemd við “Leyfum lífinu að gerast

  1. Bakvísun: Leyfum lífinu að gerast – Betri fréttir

Lokað er á athugasemdir.