Meðgangan mín

Á settum degi

,,Ertu ekki hætt að vinna“? – nei, en ég fer heim og legg mig þegar mér líður þannig.
Ég er mjög heppin að vera í þeirri aðstöðu að geta farið heim þegar ég finn fyrir þreytu vegna óléttunnar og lagt mig en mætt svo bara aftur í vinnuna. Þetta er sveiganleiki sem langt því frá allar óléttar konur búa við. Ég er mjög þakklát fyrir þennan sveigjanleika í vinnu, því hann gerir það að verkum að ég verð ánægðari í vinnu, get unnið lengur á meðgöngunni og ég er ekki að “bíða” eins mikið eftir því að barnið komi í heiminn.

Á minni fyrri meðgöngu var ég ekki með þennan sveigjanleika í vinnu. Ég var í andlega streitu mikilli vinnu og svo var ég líka í lélegra líkamlegu formi. Þá hætti ég að vinna mánuði fyrir settan dag og gekk svo 12 daga framyfir. Ég get sagt ykkur að þetta voru 12 andlega erfiðustu dagar sem ég man eftir. Að finna ekki fyrir neinu, vita ekkert eftir hverju maður er að bíða, vera alltof þung og vera bara einn heima er hrikalegur kokteill! Þetta var bara EKKI skemmtilegur endir á annars  ágætri meðgöngu.

Í öllu erfiðu er eitthvað gott

Ég lærði ýmislegt á fyrri meðgöngunni minni, þannig að ég gerði margt öðruvísi þeirri seinni. Ég ákvað að vera í betra andlega og líkamlegu formi – og vann markvisst í að hafa þá hluti í betra standi. Það skiptir miklu máli að mínu mati. Sem dæmi var ég 10kg léttari á seinni meðgöngunni minni  og nú kemur sjokkerandi staðreynd: Að vera 10kg léttari er léttara 🙂

Ég ákvað að borða ekki fyrir tvo á seinni meðgöngunni – enda er það algjör þvæla að halda að maður sé að borða fyrir tvo. Það er betra að borða bara fyrir mann sjálfan og borða einfalt, hollt og skynsamlega.

Ég ákvað að hreyfa mig á allri meðgöngunni. Ég er búin að sinna því vel að mínu mati á seinni meðgöngunni. Labbaði úr og í vinnuna og í leikskólan með dóttur mína (ca 15 mín á dag) fram að 34. viku. Þá var komin mikill sjór og hálka, svo það var ekki skynsamlegt lengur. Samhliða þessu þá mætti ég í sund ca 1-3x í viku og gerði smá æfingar.

Engin brjáluð hreyfing en nóg til þess að vera ekki að drepast í mjöðmum, bjúg og allskonar sem líkaminn lætur mann líða fyrir þegar maður er ekki að hreyfa sig. Líkaminn er hannaður fyrir hreyfingu. Það er gott að hreyfa sig á meðgöngu alveg eins og þegar maður er ekki óléttur.

Sit ein og bíð… og bíð

Á leiðinni í vinnuna í morgun (40+2).

Já, ég er ennþá að vinna, settur dagur var síðasta laugardag og ég mætti í vinnuna í morgun. Já, á meðan ég finn ekki fyrir neinu þá heldur lífið bara áfram og gengur sinn vanagang.

Ég er ekki að reyna að vera einhver ofurhetja með því að vera ennþá í vinnunni. Ég hef prófað að hætta að vinna og mig langar það ekki aftur. Það er svo miklu betra að hafa sveigjanleikann til að fara heim ef ég er þreytt. Sem ég geri – ég hlusta 100% á líkamann.

Mér finnst gaman í vinnunni, þar er tíminn fljótur að líða, ég hitti fólk og þar hef ég verkefni. Fyrir vel gifta og skipulagða manneskju eins og mig (sem þýðir: engin þvottafjöll og eldhúsið er hreint) sem eyðir ekki tíma í að horfa á amerískar þáttaraðir, þá er vinnan skemmtileg og góð leið til að vera ekki að “bíða” eftir barninu. Þar sem ég er að eignast mitt seinna barn þá veit ég hvenær ég er að fara í gang – ég veit hvernig tilfinningin er. Á meðan ég finn ekki fyrir neinu þá geri ég það sem ég er vön að gera.

„Norm“ í kringum meðgöngu

Óléttar konur búa við misjafnar aðstæður og sveigjanleiki í kringum vinnu er líka misjafn. Óléttar konur sem velja sér að vinna lengi á meðgöngunni eiga ekki að þurfa skammast sín fyrir það. Ekki frekar en að þær sem þurfa að hætta snemma vegna margra ástæðna eiga ekki heldur að þurfa skammast sín.

Við erum allskonar og ég átta mig ekki alltaf á því hvert “normið” á að vera í kringum meðgöngu. Í bíómyndum og fréttum á “lífstíls”miðlum er ekkert sérlega gott “norm” gefið upp. Þar eiga allar konur að vera hálf grenjandi alla daga, í dramakast yfir öllu mögulegu og ómögulegu. Mega ekkert gera nema horfa á sjónvarpið og vera með kreifing í furðulegustu hluti.

Fyrir mitt leiti þá er það “norm” eitthvað sem ég get ekki sett mig inní og er örugglega ekki ein um það. Ég var þreyttari en vanalega á 6-13viku. Eftir það þá þyngist ég eðlilega þar sem barn var að stækka inní maganum á mér. Svo eftir 35 viku fór ég virkilega að finna fyrir því að ég get ekki labbað eins hratt og mig langar, og fór aftur að vera þreyttari en vanalega. Ekkert auka drama, kreifing eða annað furðulegt.

Það er mín upplifun af meðgöngu og mögulega gæti þetta verið “norm” fyrir einhverjar aðrar líka?

Ég hef upplifað tvær meðgöngur, þær eru frekar ólíkar – að hluta til vegna þess að ég ákvað það. En segir mér á sama tíma að eitthvað “norm” í kringum meðgöngur er ekki til.

Hvort sem þú hættir að vinna á 20 viku eða ert að mæta á crossfit æfingu daginn fyrir settan dag, þá er ekkert eitt rétt í þessu. Samfélagið á ekki að setja upp eitthvað “norm” sem þér finnst þú eigir að fara eftir á meðgöngunni þinni.

Mynd tekin á settum degi.

Kveðja, ólétta Elín, sem er komin 2 daga fram yfir settan dag og fer að verða þreytt á spörkunum upp í rifbeinin.

Ps. Ég get ekki beðið eftir að fá litla barnið í fangið #whatamoment