Fjármál: 5 atriði sem þú skalt forðast

Það er ekkert mál að koma sjálfum sér í fjárhagsvandræði og það getur tekið mjög stuttan tíma. Einfaldasta leiðin er að eyða meira en þú þénar, gera það oft og ítrekað. Hins vegar er hægt að setja sér reglur til að lágmarka hættuna á að koma sjálfum sér í vandræði. Hér fyrir neðan eru 5 atriði sem gott að hafa sem „þumalputtareglu“. 

 

Ekki vera með kreditkortaheimild sem er hærri en útborguð laun

Ein örugg leið til að koma sér í fjárhagsvandræði er að vera með kreditkortaheimild sem er hærri en útborguð laun. Það er sama hversu oft þú segir við sjálfan þig: „ég mun aldrei nýta alla þessa heimild“ þá mun það gerast einn daginn og mögulega oftar en einu sinni. Það liggur í augum uppi að ef kreditkorta reikningurinn í lok mánaðarins er ítrekað hærri en launaseðillinn þá munu skuldir hlaðast hratt upp eða sparnaður (ef hann er til) étast hratt niður. Hafðu kreditkortaheimildina þína í takti við útborguð laun. Ég mæli með að þú hafir hana töluvert fyrir neðan útborguð laun. Þegar þú þarft t.d. að bóka utanlandsferð eða kaupa eitthvað sérhæft, þá lætur þú hækka heimildina þann mánuðinn og aðeins þann mánuðinn.

Ekki taka yfirdráttarlán fyrir almennri neyslu

Aldrei taka yfirdráttalán fyrir einhverju sem þú þarft ekki nauðsynlega. Föt, húsgögn, sumarfrí, hobbý-leikföng og útskriftarferðir eru allt hlutir sem á að staðgreiða. Ef þig langar að kaupa eitthvað sem er það dýrt að þú getur ekki staðgreitt það skaltu fresta þeim kaupum þar til þú hefur efni á að staðgreiða það. Snilldin við að fresta kaupunum er að þá gefst þér aukinn tími til að velta því frekar fyrir þér hvort þú virkilega þurfir á þessu að halda. 

Ekki taka smálán

Þetta er ekki flókið – ekki taka smálán. Smálán eru ein hlesta ástæðan fyrir því að ungt fólk í dag er að koma sér í fjárhagsvandræði. Lánsupphæðir hjá smálánafyrirtækjum eru að öllu jöfnu ekki mjög háar og því freistast margir til að taka þau án þess að pæla í því hvað það mun kosta á endanum. Smálán eru mjög dýr lán. Ef þú þarft nauðsynlega að taka lán undir 100.000 kr. talaðu við bankann þinn eða hreinlega einhvern sem þú þekkir. Svo er gott að spurja sig hvort þú nauðsynlega þurfir það sem þú ætlar að kaupa með smáláninu – má það ekki bíða þar til þú átt fyrir því?

Ekki vera með mörg kreditkort og/eða debetkort í gangi í einu

Ég mæli með einu debetkorti og einu kreditkorti fyrir einstakling. Það er mjög auðvelt að missa sjónar af því hve miklu þú ertbúin/n að eyða þegar þú ert með nokkur kreditkort í gangi í einu. Mörg kreditkort getur verið ein af ástæðum þess að þú ert komin í fjárhagsvandræði. Svo er fátt kjánalegra en að standa við afgreiðslukassa og renna þriðja kortinu í von um að það sé eitthvað inn á því. Sumir eru með fleiri en eitt kort til að safna hinum þessum punktum. Veldu þér hvaða punktum þú vilt safna og kynntu þér hvaða kort er best fyrir þig uppá það að gera. Haltu þig svo við það kort. Oft er best að kaupa dýrt kreditkort en vera bara með eitt í gangi.

Eitt að lokum varðandi kreditkort; ef þú skilur ekki hvernig kortatímabil kreditkorta virka, fáðu þá útskýringar hjá banka þínum eða haltu þig bara við debetkort.

Ekki nýta greiðslumat þitt upp í topp.

Sumt fólk kemur ríg stolt úr greiðslumati og veifar því hversu dýra íbúð það geti keypt. Það er frábært þegar fólk kemur vel út úr greiðslumati og geti keypt íbúð uppá x margar milljónir. Góð þumalputtaregla er samt að kaupa íbúð sem er töluvert undir því sem greiðslumatið segi að þú getir keypt. Greiðslumat er mat á núverandi fjárhagsstöðu og því svigrúmi sem er til staðar við að greiða af nýju láni. Greiðslumat gerir ekki ráð fyrir neinum óvæntum kostnaði í framtíðinni eða mögulegum launalækkunum.  Með því að nýta greiðslumat þitt upp í topp ertu búin að koma þér í þá stöðu að hafa lítið sem ekkert svigrúm; þú borgar af lánum og borgar allra nauðsynlegustu dagneyslu. Þetta þýðir að þú getur mjög ólíklega lagt einhvern pening til hliðar og ekki brugðist við óvæntum kostnaði nema með því að taka yfirdrátt eða ganga á sparnað ef hann er til. Ég mæli með því að vera aðeins undir því sem greiðslumatið segir og leggja frekar aukalega pening inná höfuðstól lánsins. Þannig eignast þú fyrr meira í íbúðinni þinni og það býr til meira svigrúm á margan hátt. 

Hvort finnst þér betra?

  • Að vera kvíðalaus síðustu daga mánaðarins út af fjármálum heimilisins.

EÐA

  • Eiga fallegan blómavasa og nýjustu týpuna af Outlander.

You can have anything, but you can´t have everything.

Hugsaðu aðeins fram í tíman – hafðu vaðið fyrir neðan þig.

Það er allt í lagi að eiga ekki allt nýjast, mest og best.

-Elín Kára-