Árið búið, hvað svo?

Elín Kára
Elín Kára

Sjónvarpið og aðrir miðlar taka saman annál fyrir árið, hvað stóð uppúr og hvert var megin þemað. Einstaklingar og fjölskyldur ættu að gera þetta líka. Ég gerði þetta í tvö ár, þar sem ég tók saman myndir og myndbönd sem voru tekin á árinu. Setti þetta saman í annálsmyndband og rifjaði upp skemmtilegustu, skrýtnustu og merkilegustu þætti ársins innan fjölskyldunnar.

Svo kemur nýtt ár – og hvað þá? Ég tók mér autt blað og skrifaði niður allt mögulegt sem mér datt í hug; hluti sem mig langar í og margt sem mig langar að framkvæma. Einnig allskyns gildi og þemu sem mig langar að hafa að leiðarljósi á nýju ári. Margt sem ég skrifaði á blaðið er dálítið út úr kortinu. Svo er margt sem ég mun klára á fyrstu dögum nýja ársins.

Til að gera þetta raunverulegra fyrir sjálfri mér þá tók ég annað blað og teiknaði öll orðin. Ég er ekki góður teiknari sem gerir ekkert til, því enginn nema ég þarf að skilja teikninguna. Prófaðu að gera eitthvað í þessa áttina. Margar dagbækur aðstoða við að setja sér bæði gildi og markmið fyrir árið – um að gera að nýta sér allt svoleiðis.

Nokkrar hugmyndir að öðruvísi áramótaheitum

Teikna þína sýn fyrir árið 2017Flestir setja sér áramótaheit um að léttast og vera dugleg/ur að borða hollt og hreyfa sig á fullu. En hvað með að setja sér öðruvísi markmið?

Á nýju ári minnka ég eða jafnvel þurrka út samskipti við fólk sem dregur mig niður eða er alltaf að setja útá allt sem ég er að gera.

Á nýju ári ætla ég ekki að vera draumþjófur með því að tala hugmyndir vina minna niður.

Á nýju ári ætla ég að standa með sjálfri mér.

Á nýju ári ætla ég að gera það sem mig langar til að gera – ekki það sem aðrir segja mér að sé „töff“ að gera.

Á nýju ári ætla ég í öðruvísi sumarfrí með öðru fólki en vanalega.

Á nýju ári ætla ég að borða mat sem mér líður vel af.

Á nýju ári ætla ég að sækja áhugavert námskeið.

Á nýju ári ætla ég að lesa einni bók meira en ég gerði á síðasta ári.

Á nýju ári ætla ég að byggja upp traust og efla samskipti mín við fólk sem mér virkilega þykir vænt um.

Á nýju ári ætla ég að hafa jákvæðni og bjartsýni að leiðarljósi.

Framúr væntingum

Ég byrjaði með þessa bloggsíðu í apríl á þessu ári. Ég hugsaði með mér að mögulega hefði einhver áhuga á að lesa um „pælingarnar“ mínar um lífið og tileinka sér eitthvað af því sem ég hef verið að gera. Vægast sagt þá eru viðtökurnar og heimsóknirnar inná síðuna framar öllum vonum. Á þessum átta mánuðum hefur fólk frá 48 löndum heimsótt síðuna mína. Ég er endalaust þakklát fyrir allar heimsóknirnar og öll skilaboðin sem ég hef fengið. Það er mjög gaman að setja fram efni sem hvetur fólk áfram til að gera betur í því sem það er að gera daglega.

Hugarfar er megin efni þessarar síðu. Jákvætt hugarfar kemur fólki lengra. Það er svo gaman að sjá hvernig venjulegt fólk byrjar að ná árangri með því einu að breyta hugarfarinu. Ég hvet fólk til að eyða meiri tíma í að plana sitt líf í stað þess að fylgjast endalaust með öðrum með popp og súkkulaði í hönd. Fólk myndi koma meiru í verk, sem kæmi þeim á betri stað til lengri tíma ef það myndi forgangsraða tímanum sínum öðruvísi. Eyða tímanum í sjálfan sig í stað þess að tala og velta því endalaust fyrir sér hvað aðrir eru að gera.

Pistill ársins var Taktu ábyrgð! þar sem hann fékk lang mestu lesninguna.

Uppáhalds pistillinn minn fyrir árið 2016 er Hvenær ætlar þú að hafa efni á því? og ég tel hann eiga fullt erindi við alla – alltaf.

Gleðilegt nýtt ár!

-Elín Káradóttir-