Er að leita af jólaandanum

Elín Káradóttir
Elín Káradóttir

… hefuru fundið hann? Ég er búin að vera leita af jólaandanum, fór bæði í Kringluna og Smáralind um helgina en ekkert bólar á honum. Einhverra hluta vegna fannst hann ekki í löngum röðum verslanna né á troðfullu bílastæðinu. Ekki sást til hans á ganginum (í Kringlunni né Smáralind) þar sem fólk stoppar þversum til að ákveða hvert ætti að fara næst. Mér fannst merkilegast að hann fannst ekki á skyndabitastöðunum… ég hélt að það gæti ekki annað verið en að jólaandinn myndi leynast innan um djúpsteikingarlyktina. En nei… ekkert sést til jólaandans.

Þetta var eins og að vera í leiknum „fela hlut“ og það var alltaf einhver að segja mér: „nei, þetta er kalt..“ og svo á nokkrum stöðum fór ég að volgna en aldrei komst ég á heita svæðið.

Ég var á mjög köldu svæði þegar ég sá foreldra draga grenjandi barn út úr búðinni. Þegar unglingurinn skammaði móður sína fyrir að vera skipta sér af. Og líka þegar fólk var að troðast við innpökkunarborðin. Tilfinningin var eins og í frystihúsi þegar fólk var að riðjast við lyfturnar í Kringlunni.

Ég fann fyrir volgu svæði þegar ég sá lítinn dreng setja pakka við jólatréð í Kringlunni. Mér fannst ég finna smá lykt af jólaandanum við þessa sjón.

Jólaandinn mun finnast á þessum fimm dögum sem eftir eru – ég finn það á mér!

-Elín Káradóttir-