Til hamingju – vel gert!

Elín Kára
Elín Kára

Vel gert hjá þér að ná þessum árangri!

Það er svo gaman að fylgjast með Voice Ísland þáttunum. Fyrirkomulag þáttanna er flott, að dómararnir geti einungis dæmt út frá sönghæfileikum og út frá röddinni, en dæmir ekki út frá útliti. Mér finnst skemmtilegtast að horfa á þessa flottu óþekktu einstaklinga á öllum aldri, mæta þarna með vinum eða fjölskyldu til að stíga þessi fyrstu skref. Þau hafa stuðning frá sínum nánustu. Hvort sem keppendur komast áfram eða ekki, þá taka þeirra nánasta fólk á móti þeim. Annað hvort til að fagna eða hughreysta en alltaf eru þau til staðar.

Fagna með öðrum

Mér finnst gaman að fagna þegar aðrir ná árangri. Það er gaman að sjá neistan í augunum á fólki sem hefur unnið að einhverju markmiði, lagt hart að sér og nær svo tilsettum árangri. Þá er gaman að vera í klappliðinu og samgleðjast í sigurvímunni.

Margir líta á sigur hjá einum vera tap hjá öðrum og um leið detta margir í öfund. Ef þeir sjálfir voru ekki þeir sem unnu þá skal ekki fagnað. Þetta er leiðinlega algengt hjá Íslendingum. Það er svo mikil barátta um kökuna (árangurskökuna) að ef einhver vinnur, þá gefast allir aðrir upp og tala þennan eina niður. Í stað þess að halda áfram, ná líka árangri og fagna að lokum hvort sem þú sjálf/ur vannst eða ekki. Þó einhver annar nái árangri þá þýðir það ekki endilega að þú tapir. Það geta margir náð árangri, hver á sínu sviði og jafnvel því sama.
Margir geta náð 10 á prófi, alveg eins og margir geta fengið 5 á prófi.

Gott er að setja sér markmið, vinna í átt að markinu og fagna svo þegar árangri er náð. En hverjir fagna með þér? Eðlilegt er að samferða fólk þitt fagni með þér; vinir, ættingjar og samstarfsfólk. Þú hefur ekkert með fólk að gera sem ekki getur sagt: Til hamingju 🙂

Verum dugleg að fagna með öðrum

-Elín Káradóttir-

Ein athugasemd við “Til hamingju – vel gert!

  1. Bakvísun: Til hamingju – vel gert! – Betri fréttir

Lokað er á athugasemdir.