Hvernig þjóðfélag ætlum við að byggja upp?

Elín Káradóttir
Elín Káradóttir

Þar sem kosningarnar eru búnar þá getum við núna farið að einbeita okkur meira að því sem skiptir mestu máli – við sjálf. Ég skil ekki þessa umræðu um að breyta Íslandi, breyta samfélaginu og breyta einhverri heild. Þetta er ekki hægt. Fólkið sjálft, hver og einn getur breytt sér, sínum venjum og hugsunum. Við breytum ekki heilli þjóð á einu bretti – og allra síst einhverjir stjórnmálamenn.

Þegar ég horfði á kosningasjónvarpið á laugardaginn þá var þessi spurning efst í huga mér; hvernig þjóðfélag ætlum við að byggja upp?

Fyrir rétt rúmlega einu ári síðan var ég beðin um að halda ræðu á Landsfundi Sjálfstæðisflokksins. Það er eins og ég hafi skrifað ræðuna í gær, því hún á fullt erindi í dag eins og fyrir ári síðan. Vonandi hafa stjórnmálamenn þetta í huga þegar ný ríkisstjórn verður mynduð.

*Fyrir ykkur sem nenna ekki að lesa, þá er hægt að horfa á ræðuna hér fyrir neðan og lesið svo pistilinn: Ég er nennarinn

25.okt 2015 var þessi ræða haldin:

Hvernig þjóðfélag ætlum við að byggja upp?

Þegar nýtt líf kviknar taka verðandi foreldrar aðra stefnu í lífinu. Tímanum er forgangsraðað upp á nýtt og maður fer að hugsa um allt aðra hluti en áður.

Þar sem ég á von á barni með sambýlismanni mínum var spurningin “hvernig þjóðfélag ætlum við að byggja upp” mér efst í huga þegar ég var beðin um að halda stutta ræðu sem rödd nýrrar kynslóðar.

Með þessari spurningu er ég aðallega að horfa í það, hvernig umhverfið í íslensku samfélagi er þegar ungt fólk vill eignast barn og ætlar að koma sér upp þaki yfir höfuðið.

Frá því að ég fór að huga að því að stofna fjölskyldu, fór ég að horfa meira í það hvernig vinir mínir og jafnaldrar eru að koma þaki yfir höfuðið.

Ég get ekki betur séð en að ungt fólk í dag hafi fáa og frekar takmarkaða valkosti þegar horft til þess að eignast sitt eigið húsnæði (áður en maður fer í vangaveltur um barneignir).

Ég fæ ekki betur séð en að ungt fólk þurfi að ákveða sig í kringum 16 til 17 ára aldur hvort það ætli að mennta sig eða eignast húsnæði án aðstoðar frá foreldrum eða ríkum frænkum.

Eftir að hafa skoðað mitt nánasta umhverfi blasa þessir kostir við mér.

Í fyrsta lagi geta foreldrar tekið þátt og hjálpað með útborgunina – þú menntar þig, ert með framhalds- eða háskólamenntun. Byrjunarlaunin eru ekki mjög há og því erfitt að safna en þar sem mamma og pabbi hjálpa til með útborgunina á fyrstu íbúðinni, kemst þú að heiman í kringum 25 ára eða fljótlega eftir að námi er lokið.

Annar kostur er sá að þú ert á leigumarkaðnum – og ert fastur þar. Þú hefur ekki kost á því að búa heima hjá foreldrum þínum og þar sem þig langar til að mennta þig verður draumur um eigin íbúð fjarlægur þar sem leiguverð er það hátt að fólk nær ekki að leggja fyrir í sparnað til að eiga fyrir útborgun.  

Þriðja leiðin er að búa heima hjá foreldrum á meðan þú og makinn menntið ykkur og á meðan þið safnið fyrir útborgun á fyrstu íbúð. Mörg pör, þar sem báðir aðilar ákveða að mennta sig, nýta sér þann kost að vera heima hjá foreldrum sínum allan þennan tíma. Fyrir vikið eru þessi pör eða einstaklingar að fara að heiman um þrítugt.

Fjórða leiðin er að gera það sem jafnaldri minn gerði. Hann hætti á öðru ári í menntaskóla þar sem hann var ekki að finna sig. Harðduglegur drengur sem vann út í hið óendanlega og í dag á hann skuldlausa íbúð, einungis 25 ára gamall. Hvað er þetta unga fólk að kvarta? Jú, það er kannski gott að taka það fram, að þetta ER 10 milljón króna íbúð á Egilsstöðum. Hann hafði val og valdi þessa leið.

Fimmta leiðin er sú að finna maka sem á sína eigin íbúð – en sá hópur fer minnkandi.

Ég spyr, “hvernig þjóðfélag ætlum við að byggja upp?” Eins og þróunin er núna sé ég fram á að eftir 20-25 ár munu börnin mín enn búa heima hjá mér og sennilega verða foreldrar mínir fluttir inn líka. Enda lífeyrir eldri borgara ekki þannig að auðvelt sé að lifa á honum. En það er efni í aðra ræðu.

Hvernig þjóðfélag ætlum við að byggja upp? Ætlum við að fara aftur til fortíðar og byggja upp þjóðfélag þar sem þrjár kynslóðir þurfa að búa saman í einni íbúð, eins og var hérna áður fyrr. Ég get ekki sagt að það sé spennandi framtíð fyrir mig, börnin mín né foreldra mína.

Hins vegar, ef ég byrja að spara strax fyrir barnið mitt, getur það keypt sína fyrstu íbúð stuttu eftir tvítugt. En hvað ef börnin verða tvö eða þrjú? Ég mun ekki gera upp á milli barnanna og miðað við hvernig þessi mál hafa þróast er best að ég hugsi út í þetta núna og byrji að leggja skipulega fyrir.

Ég vil ekki samfélag þar sem það verður einungis á hendi þeirra vel efnuðu að eignast börn og eigið húsnæði.

Ég trúi því að fulltrúar fólksins sem stjórnmálamenn eru, leggi allt sitt AF mörkum til að koma með raunhæfan kost fyrir fólk sem vill mennta sig, flytja að heiman fyrir þrítugt og stofna fjölskyldu.

Takk fyrir.

-Elín Káradóttir-