
Á morgun byrjar febrúar í allri sinni dýrð. Ég hef ákveðið að taka þátt í Meistaramánuði og lifa eins og meistari í mínu lífi.
Síðast þegar ég tók meistaramánuð alvarlega, þá ákvað ég að drekka ekki áfengi í einn mánuð. Með því komst ég að þeirri snilld sem fylgir því að vera edrú allar helgar. Þetta varð til þess að ég hef lifað svo gott sem áfengislaus í tvö ár. Það er ótrúlega gaman.
Ég vil hvetja þig til að taka þátt í Meistaramánuði og settu þér meistara-markmið sem þú getur staðið við.
Fækkaðu markmiðunum
Eftir að hafa tekið námskeið í markmiðastjórnun, tímastjórnun og venjum þá hef ég lært það að manns fyrsta verk er að fækka markmiðunum. Í febrúar skaltu setja þér markmið um eitthvað eitt.
Þú springur á limminu í kringum 6. febrúar ef þú ætlar að gera allt í einu; hætta reykja, hætta borða nammi, byrja (aftur) að hreyfa þig á hverjum degi, drekka 2 lítra af vatni, drekka ekkert áfengi, fara ekki með símann inn í rúm á kvöldin, ekki vera í tölvunni eftir kl.20, borða ekkert brauð, hætta að nota símann undir stýri þegar þú ert að keyra og gefa alltaf stefnuljós.
Veldu þér eitthvað eitt eða tvennt. Þá verður þetta einfalt og auðvelt að framkvæma.
Mitt markmið verður að taka lágmark 5.500 skref á dag og hreyfa mig í 30+ mín 4x í viku.
-Elín Káradóttir-
Bakvísun: Meistaramánuður í febrúar – Betri fréttir