Áhugasvið fólks eru misjöfn eins og við erum mörg. Að sama skapi er misjafnt á hvaða sviði fólk vill ná lengra og vera árangursríkt.
Möguleg ástæða fyrir því að þú ert ekki að ná langt í því sem þú ert að gera er vegna þess að þú ert ekki á réttri hillu. Þú gætir mögulega náð undraverðum árangri á einhverri allt annarri hillu en þeirri sem þú hefur valið þér að vera á hingað til. Þess vegna er svo mikilvægt að fólk fari sínar eigin leiðir, bæði í vali á áhugamálum og starfsvettvangi. Fara sína eigin leið en ekki leiðina sem foreldrar vilja að þú farir eða leiðina sem vinirnir eru að fara.
Velja sína leið

Ef áhugasvið þitt er það sama og besta vinar/vinkonu þá er það frábært. Það er líka flott að hafa sömu hæfileika og foreldrar sínir. Hvað þá að hafa sömu áhugamál og afi og amma, það er enn betra.
En ef þú hugsar út í það – hverjar eru líkurnar? Hverjar eru líkurnar á því að allar vinkonurnar í vinahópnum munu vinna við það sama í framtíðinni eða ná árangri á sama sviði? Hverjar eru líkurnar á því að barnabarnið hafi jafn mikla ástríðu og hæfileika til að reka fjölskyldu fyrirtækið sem afi og amma byrjuðu með? Hverjar eru líkurnar á því að þú náir árangri á sama sviði og foreldrar þínir?
Til að ná lengra þarftu að gera það sem þig langar til að gera. Þú veist nákvæmlega hvenær þú ert á réttri hillu. Rétt hilla gefur góða tilfinningu og spennu fyrir morgundeginum. Þú byrjar að finna lausn á vandamálum og verkefnum dagsins í stað þess að búa til vandamál. Það getur ekkert stoppað þig, vegna þess að þú ert að gera það sem þú vilt, á þínum eigin forsendum. Þú byrjar að vinna að þínum eigin draum og ert ekki lengur að vinna að draumum annarra.
Fara aðra leið

Mér finnst erfitt að heyra fólk vera gagnrýnt fyrir áhugamálið sitt eða jafnvel starfsvettvanginn sinn. Mér finnst flott þegar fólk ákveður að gera ekki það sama og allir vinirnir, gera eitthvað allt annað en öll hin systkynin eða ákveða að fara ekki á sjó eins og afi og pabbi gerðu.
Margir ná ekki langt vegna þess að þeir eru alltaf að reyna að lifa drauma einhvers annars, eru að uppfylla kröfur og óskir annarra. Svo áttar fólk sig á því að það hefur eytt stórum tíma af sinni ævi – jafnvel allri ævinni í að uppfylla óskir annarra.
Ert þú að gera það sem þú vilt? Ef þú getur ekki svarað spurningunni, þá ertu sennilega ekki að því.
Hvað viltu?
Bakvísun: Að ná lengra – Betri fréttir