“Sumarið er tíminn þegar hjartað verður grænt og augu þín verða himinblá” söng Bubbi svo eftirminnilega. Þegar sólin bíður góðan dag og tekur á móti manni á morgnanna þá söngla ég þetta lag. Á sama tíma fæ ég hugmyndir um hvernig ég sé fyrir mér sumarið sem er framundan. Ert þú búin að leggja línurnar með hvernig sumarið þitt verður?

Jákvætt hugarfar kemur þér lengra og mun færa þér besta sumar sem þú getur upplifað. Þess vegna spyr ég: Hvaða hugarfar ertu með fyrir komandi sumar?
Segir þú við sjálfa/n þig á fyrstu dögum sumarsins að þetta verði besta sumar til þessa? Ertu kannski ekkert að spá í að það sé komið sumar. Hugsar þú kannski: “það er ekki eins og þetta sumar verði eitthvað öðruvísi en önnur”. Ég vona þín vegna að þú sért ekki á þeim stað. Ef þú hugsar svona, reyndu þá allt sem þú getur til að losa þig við þennan hugsunarhátt.
“Sumarið er tíminn, þegar mér líður best” – Bubbi Morthens
Ertu búin að átta þig á því að þú hefur fulla stjórn á því hvernig sumari þitt verður? Það er undir þér komið hvernig þú spilar út sumar-spilunum.

Ég mæli með að þú skipuleggir sumarið þitt útfrá því hvernig þú vilt hafa það. Gott er að skrifa niður punkta um það sem þig langar til að gera núna í sumar. Leyfðu þér að dreyma og skelltu því niður á blað, hugsaðu bæði um raunhæfa og óraunhæfa hluti til að skoða eða gera.
Lykilatriðið er að hugsa ekki um veðrið. Það er slítandi og orkusjúgandi að hugsa um eitthvað sem þú hefur ekki stjórn á. Einblíndu frekar á hluti sem þú getur haft áhrif á. Ekki leyfa veðrinu að eyðileggja fyrir þér sumarið – veðrið á Íslandi breytist oft á dag. Vertu með hugsunarháttinn gagnvart deginum í lagi og þá mun veðrið ekki eyðileggja neitt fyrir þér.
Þetta verður þitt sumar
Gerðu sjálfum þér greiða og hafðu þetta sumar ekki eins og öll önnur sumur hafa verið? Breyttu um rútínu, mættu á aðra viðburði en vanalega og gerðu eitthvað nýtt. Legðu línurnar með að þetta verði þitt besta sumar fram til þessa. Gerðu eitthvað sem þig langar til að gera en ekki endilega það sem stórfjölskyldan eða vinir ætla að gera. Farðu þína eigin leið.
Vertu höfundur að þínu eigin sumari en ekki aukaleikari hjá öðrum.
Sniðugar hugmyndir af hlutum til að gera eru gönguferðir um perlur Austurlands, tjalda í Ásbyrgi, ganga Laugarveginn, fara til Vestmannaeyja og njóta alls sem þar er í boði. Skoða áhugaverða staði í heimabyggð, það er gaman að fara á upplýsingamiðstöðina á staðnum og skoða hvað er mælt með fyrir erlenda ferðamenn. Kíktu á Snæfellsnesið, rafting í Skagafirði eða fara í skipulagða ferð á Hornstrandir. Fara til útlanda og vera frumleg/ur í vali á landi. Hitta fólk, fara í lautarferð eða taka þátt í bæjarhátíðum. Það er nóg um að vera út um allt.
Vissir þú að fólk sem gerir eitthvað nýtt á hverjum degi er líklegt til að léttast við það eitt af vera ekki fast í rútínunni sinni. Vertu á hreyfingu – hugsaðu jákvætt. Það er léttara.
Gerðu þetta fyrir þig – þetta verður þitt sumar.
Vá, fékk mig strax til að verða nokkrum númerum jákvæðari 🙂 Strax farin að skrifa niður lista yfir allt sem mig langar að gera í sumar! 😀