Takkasími í tvo daga!

Að vera með takka síma í tvo daga er eitt af því  mest hressandi sem ég hef gert í langan tíma – go back to 2009.

2009 var fyrsti snjallsíminn keyptur – þvílík bylting! LG Viewty KU900i var sko inn í þá daga. Byltingin fólst í því að maður gat kíkt á facebook en í takmörkuðu formi. Maður gat skoðað stöðufærslur (status-a) og fylgst með kommentum, allar frekari aðgerðir þurftu að bíða þar til maður komst í tölvu.

Takkasími

Ég skipti yfir í Nokia snjallsíma 2011, sem voru alveg glataðir símar að mínu mati. Síminn tók ágætis myndir og snilldin við hann var að ég gat myndirnar beint á facebook, það tók sinn tíma en í þá daga var þetta “enga stund”.

Árið 2013 einfaldaðist líf mitt því þá eignaðist ég minn fyrsta “alvöru” snjallsíma – iphone 5. Líf mitt einfaldaðist með þessum nýja síma og tölvan nánast hvarf úr lífi mínu. Með þessu tæki gat ég gert ALLT!

Skoðað facebook, sent tölvupóst, tekið myndir og deilt þeim hvernig sem ég vildi, hlustað á tónlist í góðum gæðum, skipulagt mig í rafrænni dagbók og skoðað ja.is á ferðinni (þannig að símaskráin var ekki lengur í skottinu á bílnum, því dreifbýlistútta eins og ég gat engan veginn ratað um götur Reykjavíkurborgar án kortanna sem eru aftast í símaskránni) – já í nýja snjallsímanum var allt sem 23 ára nútímakona þurfti á að halda.

Í tvö ár hefur iphone verið minn besti vinur og ferðafélagi. Hann fer með mér allt og AppleID-ið mitt geymir allar mínar minningar og skipulag yfir þessi tvö ár, sem mér finnst vera öll mín ævi.

Ég velti því stundum fyrir mér hvernig ég fúnkeraði eiginlega í öll þessi ár án snjallsímans?

Fyrir nokkrum dögum ákvað ég að ögra sjálfri mér aðeins og var með einfaldan takka síma í tvo daga.

Upplifun mín með takkasíma en ekki snjallsíma:

-sitja á veitingastað og þurfa að bíða eftir matnum með því að horfa í kringum mig

– tíminn endalaust lengi að líða.

-fylgjast með umferðinni á rauðu ljósi en ekki rétt að kíkja á Instagram.

-fékk aðra höndina mína tilbaka, því núna var hún ekki upptekin við að halda á símanum.

-horfði í kringum mig þegar ég var að labba á milli húsa eða lengri leiðir t.d. inn í verslunarmiðstöð í stað þess að vera með augun á símanum við að svara póstum, kíkja á snapchat eða kommenta á eitthvað ótrúlega sniðugt.

-tók eftir fólki og veifaði því, ég hefði 100% ekki tekið eftir því ef snjallsíminn hefði verið með í för.

-ekkert áreiti – ekkert “noise”.

-setti inn á Facebook stærstu frétt lífs míns, að ég og sambýlismaður minn ættum von á barni, var svo bara á ferðinni allan daginn og naut þess að lesa allar kveðjurnar í ró og næði um kvöldið í tölvunni – en ekki alltaf að kíkja og skoða allan daginn – mikill friður.

-endaði daginn ekki á því að skrolla upp/niður facebook og byrjaði daginn ekki heldur á því að skrolla upp/niður facebook – náði jarðtengingu aftur.

-þurfti að skoða ja.is áður en ég lagði af stað í matarboð upp í Grafarvog, því ég var ekki með snjallsímann.

Ég var líka sú eina í matarboðinu sem fór ekki í símann á meðan við biðum eftir matnum og enginn hafði neitt að segja (vandræðalega þögnin, þið vitið, sem er oft í byrjun). Ég hló af þessu og hugsaði með mér, ef ég hefði verið með snjallsímann minn þá hefði ég líka verið í símanum eins og hinir og ekki tekið eftir þessu.

-hringdi einungis í elstu vinkonur mínar og heimasíma hjá skyldfólki mínu. (Þetta eru einu númerin sem ég man í dag, þau sem ég notaði sem krakki. Og já, ég virkilega þurfti að læra símanúmerið hjá Sigga sambýlismanninum mínum sem ég hef verið í stöðugu samskiptum við í rúm 2 ár.

 

Já, það er hressandi að hrista aðeins upp í lífinu og breyta til í tvo daga.

Ég er háð snjallsímanum mínum.

Ég þarf að setja sjálfri mér reglur um notkun svo ég missi ekki af hálfu lífinu mínu og aðra höndina upptekna við að halda á símanum mínum.

Ég vil einfalda líf mitt með snjallsímanum. Lífið í gamla daga var flókið því þá þurfti maður að hafa takkasíma, myndavél, ipod, dagbók, minnisblöð, tölvu + netpung og símaskrá í skottinu á bílnum.

Hvernig notar þú símann þinn?

-Elín Káradóttir-

Þessi pistill var skrifaður á Facebook síðuna mína í október 2015.