Að byrja

Hvar á ég að byrja?

Þetta er spurning sem margir spyrja sig þegar nýtt verkefni tekur við. Hægt er að setja þetta í samhengi við svo margt; ný ritgerð í skólanum, nýtt verkefni í vinnunni, ný lífsáskorun, stofna nýjan rekstur eða taka í gegn hreyfingu og matarræði?

Margir forðast að svara þessari spurningu fyrir sjálfan sig og fyrir vikið eru margir sem byrja aldrei.

Hvar væri best að byrja?

Mér finnst best að byrja með hvítt autt blað og penna. Skrifaðu, teiknaðu eða á einhvern hátt skaltu koma hugmyndinni þinni niður á þetta hvíta blað. Hvað er það sem þig langar til að gera? Það mun enginn sjá þetta blað, svo þú mátt skrifa það sem þér sýnist.

Með því  að skrifa eða teikna nokkra hluti á blaðið, þá erum við byrjuð!

Flest allar nýjar hugmyndir – nýjar vörur, þjónusta eða hvað sem er notað dags daglega byrjaði sem lítil hugmynd í kollinum á einhverjum. Þessar litlu hugmyndir voru krotaðar niður á blað, svo var unnið með þær á bjartsýninni einni saman til að byrja með.

Af hverju ættum við ekki að setja okkar hugmyndir niður á blað og vinna með þær? Því einhvern daginn gæti komið að þeim tímapunkti að hugmyndin þín nær að fljúga úr hreiðrinu. Flugið sem hugmyndin þín gæti náð er svo hátt að þú getur ekki ímyndað þér það á þessum tímapunkti. Væri mögulega þess virði að byrja? “Já” er mitt svar!

Hugmyndin að blogginu mínu er búin að vera í mörg ár að þróast og veltast. Búið er að skrifa og teikna á mörg hvít blöð, en ég hef alltaf stoppað á því hvernig ég gæti byrjað. Ég var alltaf að bíða eftir því að hugmyndin mín væri fullmótuð til þess að byrja. Með tímanum hef ég áttað mig á því að það er óraunhæft, því engin hugmynd er fullmótuð þegar menn leggja af stað.

Gott er að setja hlutina í samhengi og það er alveg ljóst að fyrsta hugmyndin hjá Steve Jobs var ekki fullmótuð. Hann byrjaði ekki á tækjunum sem við höldum á dags daglega, þetta hefur tekið mörg ár að þróast í iPhone-inn sem ég nota uppá hvern dag.

Ég geri ráð fyrir því að bloggið mitt muni þróast í ólíklegustu áttir með tímanum. Ég hlakka til að horfa til baka eftir einhvern tíma og sjá hver þróunin verður með tímanum.

Markmiðið mitt er að birta nýjan vikulegan pistil á mánudögum um allt mögulegt. Megin uppistaða pistlanna minna verður jákvætt hugarfar, ná árangri, kveikja á meðvitundinni, framkoma, árangur, tími, framkvæma og margt fleira sem mér dettur í hug.

Einnig verður hægt að skoða Áhugavert efni og þar verður umfjöllun um bækur, fjármál, heilsu og mögulega mun ég líka koma matarhugmyndum mínum fyrir með tímanum.   

Umfram allt er mikilvægt að byrja – verum jákvæð, því þannig komumst við lengra.

-Elín Kára-

2 athugasemdir við “Að byrja

  1. Tína

    Til hamingju með síðuna þína dásemd. Ég hlakka til að fylgjast með þér hér sem og annars staðar

Lokað er á athugasemdir.