„Ég hef svo mikið að gera“

Þessi setning hljómar í eyrum fólks á hverjum degi. Þetta er fyrsta afsökunin hjá fólki fyrir öllu mögulegu – það hefur svo mikið annað að gera. Ég er ein af þessu fólki og hef verið alla tíð. Ég hef verið mjög dugleg við það að hafa mikið að gera og halda sjálfri mér upptekinni. Aðallega vegna þess að mér finnst það skemmtilegra líf að hafa eitthvað fyrir stafni.

Mér leiðist…

Ég hef upplifað það, að leiðast. Ég held að það séu ekki ýkur, en það var sennilega það leiðinlegasta sem ég hef upplifað. Að vakna á morgnanna og hafa svona um það bil ekkert fyrir stafni. Sem betur fer, var það stutt tímabil, en samt nokkrar vikur. Ég nýtti þó tíman til að hugsa og plana bjarta framtíð. Á þessum tímapunkti ákvað ég, rétt tæplega 18 ára gömul, að mér skildi aldrei leiðast svona aftur. Ég skildi alltaf hafa nóg fyrir stafni því eitthvað annað væri ekkert líf. Síðan þá hef ég alltaf haft nóg – og vel rúmlega það fyrir stafni.

Hafa raunverulega mikið að gera

Nú er svo komið að ég hef upplifað það tímabil að hafa í raunveruleikanum of mikið að gera. Það er yfirstaðið, sem betur fer. Ég hef oft haft „mikið að gera“ en alltaf ráðið við það og alveg getað komið fyrir smá sjónvarpsglápi sem dæmi, eða skroll á Facebook (sem er nútíma tímaþjófur).

Ég hins vegar hef upplifað það í nokkrar vikur, að hafa það mikið að gera að geta ekki einu sinni horft á sjónvarp. Ekki haft tíma til að skella einni mynd á Instagram og ekki haft tíma til að hlaupa 1km. Þegar ég hugsa til baka, þá var svolítið gaman að upplifa það að hafa raunverulega mjög mikið að gera. Þetta var erfitt tímabil en ég hugsa um það með bros á vör – því þetta var skemmtilegra tímabil en að hafa ekkert að gera og láta sér leiðast.

-Elín Kára-