Hamingjan er hér og ástin náði hámarki í gær þegar við Siggi giftum okkur í stofunni heima. Þetta var alveg æðisleg stund og gleði tilfinningarnar voru allsráðandi. Ég er með harðsperrur í kinnunum í dag, ég brosti svo mikið í gær 🙂
Giftingin okkar var nákvæmlega eins og við vildum hafa hana. Róleg, falleg og einlæg stund var það sem við vildum fá fram á þessu mómenti – og það fengum við. Presturinn, séra Ninna Sif var með fallega hugvekju til okkar og svo spurði hún spurninganna, sem þarf að spyrja til þess að hægt sé að gifta fólk. Og ég réði engan veginn við gleðitárin þegar öll orðin komu og svo „já“ í endan frá þeim manni sem ég elska. Þetta var hamingjutilfinning sem sprengdi alla skala. Þegar „já“ var komið frá okkur báðum vorum við formlega gift.
Við Siggi höfum lengi verið ákveðin í því að gifta okkur en vorum að detta í þann pakka að fresta því vegna týpískra afsakana – höfum ekki tíma, ég er ólétt, það er of margt annað í gangi o.fl. Svo gerðist það. Við ákváðum að láta ekki ytri aðstæður trufla okkur og hindra því að lagaleg réttindi okkar væru á hreinu EF eitthvað kemur fyrir. Við bókuðum prest og töluðum við tvo af okkar hjartans vinum, sem voru viðstaddir sem brúðarvottar. Fleiri vissu ekki af þessu brúðkaupi fyrr en í gær – 8.10.2017.
Fljótlega eftir að við vorum búin að festa dag til að gifta okkur, hóf ég nám í Háskóla Íslands, þar sem ég er m.a að læra ágrip af hjúskaparrétti. Eftir að hafa kynnt mér lög um hjúskaparrétt þá var þetta engin spurning að mínu mati. Þegar fólk er farið að rugla saman fjármunum eins og með því að kaupa fasteign og þegar menn eiga saman börn þá eru lagaleg réttindi þín einungis tryggð með því að ganga í hjúskap.
Það eru engin lög til um skráða eða óskráða sambúð. Það að skrá sig í sambúð gerir það að verkum að barnið þitt verður sjálfkrafa barn mannsins þíns – þá er það nánast upptalið. Svona í raun og veru, þá er skráð sambúð lítið meira en að vera kærustupar í menntaskóla, þó svo að sambúðin hafi verið í 30 ár.
Annað sem ég verð að deila með ykkur; þá hafa skipstjórar ekki og hafa aldrei haft réttindi til þess að gefa fólk saman í hjúskap (17.gr laga nr. 31/1993). Þeir hafa mögulega haft þau réttindi í einhverri sápuóperu 🙂
Brúðkaupið okkar
Látum ekki samfélagið segja okkur hvernig brúðkaup við EIGUM að halda. Höfum það nákvæmlega eins og við sjálf viljum hafa það. Látum ekki gervineglur, veisluhöld og áhyggjur af núllunum á VISA reikningnum koma í veg fyrir okkar lagalegu réttindi. Réttindi okkar eru svo miklu mikilvægari – hvort sem menn skilja seinna í framtíðinni eða annar aðilinn falli frá.
Við Siggi erum ákveðin í því að halda uppá brúðkaupsafmælið okkar eitthvert árið. Þá munum við fagna þeim áfanga með okkar vinum og fjölskyldu.
Ást og hamingja
-Elín Káradóttir-